Varðveisla framleiðir gerjunarílát til súrkálsgerðar þau eru til sölu í vefverslun verkefnisins https://www.vardveisla.is Nokkrir aðilar, bæði reyndir og óreyndir í súrkálsgerð og ýmis konar gerjun á grænmeti og öðrum matvælum, hafa prófað ílátin og láta vel af útliti þeirra og virkni.

Ílátin eru með innbyggðum vatnslás sem hleypir lofti jafnóðum út úr ferlinu en súrefni kemst ekki inn í það til baka. Á þann hátt verður gerjunin jafnari yfir tímabilið og  þrýstingur safnast ekki upp í ílátinu. Því þarf ekki að fylgjast jafn oft með gerjuninni og gerjun í hefðbundnum krukkum. Einnig fylgir með ílátunum farg sem heldur innihaldinu undir yfirborði vökvans sem myndast í gerjuninni og stuðlar þannig að betri virkni í gerjunarhólfinu.

Hér má sjá video af súrkálsgerð í gerjunarkrukku Varðveislu.Varðveisla er verkefni sem byggir á útskriftarverkefni Ingu frá Listaháskóla Íslands vorið 2019. Þar er skoðað samband heilsu, fæðu og þarmaflóru líkamans. Nánari upplýsingar um það er að finna hér.

Viðfangsefnið er þróun á sérstökum ílátum úr leir sem auðvelda matargerð með náttúrulegum ferlum þar sem örverur eru við stjórn.  

Hönnuð eruð matarílát úr leir sem notuð eru í tvenns konar gerjunarferli. Annars vegar ílát til gerjunar á  grænmeti og hins vegar fyrir varðveislu súrdeigsmóður. Ferlin eru loftfirrt og eru ílátin sérstaklega hönnuð fyrir þau. Vatnslás er innbyggður í ílátin, hann hleypir lofti út úr þeim en ekki inn í þau. Hönnunin vísar í hefðir. Þær stjórnast af náttúrulegum ferlum sem innihalda góðgerla en þeir eru nauðsynlegir fyrir meltingu okkar.

Á Instagram síðu verkefnisins má fylgjast með framvindu þess.

Nánar: 
Í nútímasamfélagi er lögð mikil áhersla á hraða og skilvirkni. Fólk vinnur langa vinnudaga og hefur lítinn tíma aflögu til að sinna grunnþörfum. Heilsa fólks er mikið í umræðu á Íslandi og reglulega kemur upp umræða um það hversu afgerandi áhrif þarmaflóran hefur á hana. Mataræði sem stuðlar að bættri heilsu og nýtingu næringarefna úr fæðunni nýtur vinsælda. Matarhönnun í dag gengur að miklu leyti út á að nota staðbundin hráefni, vinna matinn frá grunni og nýta náttúrulega ferla eins og gerjun matvæla. Hráefnin sem notuð eru í slíka matargerð, eru einföld, aðgengileg og flest auðræktanleg á Íslandi. Því stuðlar hún að vali á staðbundnu hráefni og miðar þar af leiðandi að sjálfbærni. Sérstaða verkefnisins felst í því að hönnuð eru ílát með sérstakri virkni sem nýtist í náttúrulega ferla, en þeir byggjast á gömlum hefðum. Útlit ílátanna þ.e. form og áferð, vísar í innihald þeirra. Ílátin eiga að ýta undir áhuga á að nýta þessar gömlu hefðir. Áhugaverð ílát sem eftirsóknarvert er að hafa sýnileg í fallegu umhverfi nútíma heimilis. Ílátin skapa umræðu sem hvetur til matargerðar á heimilinu. Það stuðlar einnig að því að hægja á og fá hvíld frá hraða og streitu umhverfisins.

Varðveisla hlaut verkefnastyrk frá Hönnunarsjóði haustið 2019.
© Efnasmiðjan 2023