Lúpína í nýju ljósi er verkefni sem gengur út á að kanna nýtingarmöguleika alaskalúpínu Lupinus Nootkatensis. Verkefnið er jafnframt unnið á sviði hönnunar, lista og sem rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að þróa umhverfisvænt trefjaefni til framleiðslu.
Nánari upplýsingar um forsögu verkefnisins er á heimasíðu þess, lupineproject.com.


Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar er samstarfs verkefni Efnasmiðjunnar og Matís sem Tækniþróunarsjóður Íslands styrkir. Það gengur út á rannsóknir á trefjaefni úr alaskalúpínu. Markmiðið er að nýta þær til að þróa umhverfisvænt trefjaefni s.s. umbúðir og byggingarefni. Niðurstöður úr fyrri tilraunum gefa til kynna að plantan hafi eiginleika sem gerir það að verkum að trefjar hennar bindast vel saman og mynda sterkt trefjaefni. Rannsóknirnar byggja m.a. á tilraunum með mismunandi vinnsluaðferðir fyrir framleiðslu á trefjaefninu til að meta hagkvæmustu og umhverfisvænustu aðferðina án þess að rýra eiginleika hráefnisins. Efnið er án utanaðkomandi bindi eða aukaefna og getur auk þess brotnað hratt niður í náttúrunni. Nýnæmi verkefnisins er að nýta staðbundna, sjálfbæra plöntu í umhverfisvæna afurð. Markaðir fyrir umhverfisvænar vörur eru í mótun og staða umhverfismála er áskorun til að hanna nýjar leiðir til framtíðar. Í áskorunum liggja tækifæri og trefjaefni úr lúpínu getur skapað nýja möguleika.  Matís sér um rannsóknir og mælingar sem eru nauðsynlegar til að þróun trefjaefnisins sé byggð á raunverulegum möguleikum. Verðmæti trefjaefnis úr lúpínu getur bæði verið fjárhagslega og einnig samfélagslega jákvætt fyrir ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. 
© Efnasmiðjan