Lúpína í nýju ljósi
Lúpína í nýju ljósi er verkefni sem gengur út á að kanna nýtingarmöguleika alaskalúpínu Lupinus Nootkatensis. Verkefnið er jafnframt unnið á sviði hönnunar, lista og sem rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að þróa umhverfisvænt trefjaefni til framleiðslu.
Nánari upplýsingar um forsögu verkefnisins er á heimasíðu þess, lupineproject.com. Hér fyrir neðan eru upplýsingar um rannsóknarverkefnið „Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar“ sem unnið var í samstarfi við Matís á árunum 2020-2022 og styrkt af Tækniþróunarsjóði.
Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar“ - verkefni lokið

Verkefninu „Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar“, sem unnið var í samstarfi við Matís og styrkt af Tækniþróunarsjóði, er nú lokið og hefur markmiðum þess verið náð. Meginmarkmið verkefnisins var að þróa niðurbrots- og vinnsluaðferð sem beita mætti á lífmassaalaskalúpínu, til að framleiða umhverfisvænt og öruggt trefjaefni fyrir matvælaumbúðir. Einnig voru gerðar prófanir á trefjaefnisplötum úr lúpínu, á sviði byggingarefna.

Í samstarfi Efnasmiðunnar og Matís voru þróaðar niðurbrotsaðferðir fyrir lífmassa alaskalúpínu, sem gæfu sterkt trefjaefni og hægt væri að nýta í matvælaumbúðir. Í alaskalúpínu eru beiskjuefni sem hugsanlega gætu smitað út frá sér og haft mengandi áhrif á matvæli. Því var þróuð niðurbrotsaðferð á lífmassa lúpínu sem fjarlægir beiskjuefni úr hráefninu. Með því móti er hægt að framleiða sterkar, niðurbrjótanlegar, umhverfisvænar og öruggar matvælaumbúðir (e. food safe). Skalað var upp úr rannsóknarstofu í smáskalavinnslu til að sannreyna vinnsluferlið.

Alskalúpína er sjálfbær planta, sem dafnar vel við íslenskar aðstæður og þarfnast ekki áburðargjafar, né innflutnings á fræi.  A.m.k. 30.000 tonn af aðgengilegu lífmassa lúpínu vaxa á suðurlandi á hverju ári. Möguleiki væri að rækta alaskalúpínu til viðbótar fyrir vinnsluna. Hana má nýta við gerð trefjaefnis, en hægt væri að framleiða um 50 milljónir af umbúðaöskjum úr 30.000 tonnum af lúpínu. Umbúðirnar mætti hugsanlega nýta undir íslenskt grænmeti, s.s. tómata, jarðaber og sveppi. 

Sérstaða lúpínutrefjaefnisins er sú að það er framleitt án allra íbætiefna s.s. líms með formaldehýði, sem getur gefið því forskot í samkeppni við önnur trefjaefni á markaði fyrir umhverfisvæn byggingarefni í dag. Í Tæknisetri voru gerðar prófanir á trefjaplötum úr lúpínu, á sviði byggingaefna, með hliðsjón af viðurkenndum evrópskum stöðlum og rannsóknum. Niðurstöður mælinga voru bornar saman við þekkt byggingarefni, sem teljast til meðalþéttra trefjaplatna. Með því móti tókst að staðsetja trefjaplötur úr lúpínu miðað við önnur þekkt byggingarefni. Úr 30.000 tonnum af lúpínu má framleiða um 1.300.000 m2 af 10 cm þykkum trefjaplötum.

Niðurstöður verkefnisins sýna að hægt er að vinna t.d. matvælaumbúðir eða byggingaefni úr sjálfbæru vannýttu hráefni alaskalúpínu. Óhætt er að segja að þróun niðurbrotsaðferða hafi gengið vel og staðfesta efnarannsóknir það.


Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar er samstarfs verkefni Efnasmiðjunnar og Matís sem Tækniþróunarsjóður Íslands styrkir. Það gengur út á rannsóknir á trefjaefni úr alaskalúpínu. Markmiðið er að nýta þær til að þróa umhverfisvænt trefjaefni s.s. umbúðir og byggingarefni. Niðurstöður úr fyrri tilraunum gefa til kynna að plantan hafi eiginleika sem gerir það að verkum að trefjar hennar bindast vel saman og mynda sterkt trefjaefni. Rannsóknirnar byggja m.a. á tilraunum með mismunandi vinnsluaðferðir fyrir framleiðslu á trefjaefninu til að meta hagkvæmustu og umhverfisvænustu aðferðina án þess að rýra eiginleika hráefnisins. Efnið er án utanaðkomandi bindi eða aukaefna og getur auk þess brotnað hratt niður í náttúrunni. Nýnæmi verkefnisins er að nýta staðbundna, sjálfbæra plöntu í umhverfisvæna afurð. Markaðir fyrir umhverfisvænar vörur eru í mótun og staða umhverfismála er áskorun til að hanna nýjar leiðir til framtíðar. Í áskorunum liggja tækifæri og trefjaefni úr lúpínu getur skapað nýja möguleika.  Matís sér um rannsóknir og mælingar sem eru nauðsynlegar til að þróun trefjaefnisins sé byggð á raunverulegum möguleikum. Verðmæti trefjaefnis úr lúpínu getur bæði verið fjárhagslega og einnig samfélagslega jákvætt fyrir ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. 
   
       
© Efnasmiðjan 2024